Stundum þarf bara eina kisu

Það er ekki sú manneskja á jörðinni sem ekki hefur þörf fyrir að vera elskuð, samþykkt og meðtekin eins og hún er, sumir eiga marga að sem mæta þessari þörf en aðrir fáa, jafnvel mjög fáa, Það er samt ekki „fjöldinn“ sem færir okkur lífshamingju heldur „gæðin“ sem við eigum með þeim sem eru við hlið okkar.

Ég sá einu sinni þátt í sjónvarpinu um aldraða einstaklinga á elliheimili, þar var rætt við þau um þá staðreynd að lífsneistinn væri brátt að slokkna og þeirra tími hér í þessu lífi brátt á enda. Það sem var sláandi var einmannaleikinn sem þeir öldruðu bjuggu við, aðstandendur fjarri og starfsfólkið hafði lítinn tíma til að sitja og spjalla af innileika. Það var því aðallega hugsunin um gamla góða tíma og góð tengsl sem yljaði hugann.

Fyrir stuttu talaði ég við unga konu sem var í dálítið svipaðri stöðu og gamla fólkið. Hún lifði við mikinn einmanaleika og von hennar til framtíðarinnar var lítil. Hún átti þó smá vonarneista um að þessi einmanaleiki myndi á einhvern hátt breytast eins og fyrir kraftaverk. Við ræddum með okkur hvað gæti mögulega breytt þessum aðstæðum og komumst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að byrja með litlum skrefum. Nauðsynlegt væri að byggja styrkar undirstöður og mynda hægt og rólega samband aftur við umheiminn og horfna ættingja. Við fundum út í sameiningu að það að eiga kött myndi gefa lífinu breyttan tilgang, með því fengi hún einhvern til að hugsa um og hlúa að, gefa kærleika og um leið þiggja þann kærleika sem kisinn gæti gefið henni með öllu sínu kúri og mali.

Kattholt var heimsótt, pattaraleg kisa ættleidd og þar með var lítil fjölskylda orðin til. Næst þegar við hittumst var kominn nýr neisti í ungu konuna og aukin lífsgleði. Það breytti öllu hjá henni að þurfa ekki að sofna ein heldur hafa kúrandi kisu uppi í hjá sér, að kalla á einhvern sem svaraði og kom hlaupandi á móti henni og hafa einhvern við hlið sér til að strjúka við lestur eða horfa á sjónvarpið. Já, það þarf stundum bara einn lítinn kött til að hreinlega bjarga lífi og geðheilsu einmana sál.

Og þá komum við að þessu sem skiptir svo miklu máli. Nánd er það sem fær okkur til að finna neistann til lífsins. Það er í nándinni sem við upplifum tilgang og löngun til að takast á við lífið, því meiri nánd því meiri lífsneisti, lífsgleði.

Sumir eiga ekki bara dýrmætan kött við hlið sér til að horfa á sjónvarpið, heldur eiga sumir dýrmæt börn, maka, foreldra, vini og svo framvegis, en þrátt fyrir að eiga marga í kringum sig, þá breytir það engu ef ekki er til staðar nándartengsl milli einstaklinganna.

Einstaklingur getur faðmað, getur verið í stórum vinahóp, stundað kynlíf og varið jafnvel öllu lífinu með stórri fjölskyldu án þess að eiga í nándarsambandi. Það að rækta ekki og finna nándartengsl er því miður sorgleg staðreynd í lífi alltof margra.

Innlifun, að setja sig í spor annarra, að „finna fyrir öðrum“ færir okkur nær hvert öðru. Samhygð, að vilja þekkjast og þekkja aðra, að opna fyrir hver maður í raun og veru er, og að sjá og vera séður af öðrum, byggir upp öryggi og nánd. Innlifun leiðir þar af leiðandi til tilfinningalegrar vellíðanar sem eykur lífgleði og lífshamingju.

Þú getur verið konungur í stóru ríki með mörgum þegnum en samt fundið þig einmana og yfirgefinn.

Þegar fólk er í góðum nándartengslum, við þá sem þeim þykir vænt um, eykst framleiðsla heilans á morfíntengdum efnum heilans, endorfinum sem deyfa sársauka og kalla fram vellíðan, Það er aftur á móti mjög sársaukarfullt að lifa við skort á nánd. Ef ekki er til staðar nándarsamband sem maður getur tengt sig við og fundið samhygð, er líklegra að einstaklingurinn leiti í einhvers konar fíkn til að deyfa það sem ekki fær farveg fyrir tilfinningalega.

Það að hafa einhvern að tala við, opna hjarta sitt við og finna samkennd og skilning, er ein af undirstöðum þess að líða vel og upplifa öryggi og samþykkt.

Það skiptir því ekki máli hvort þú ert á áttræðisaldri eða ungt barn, sál allra kallar á nánd.

Verum því til staðar, enginn getur verið til staðar fyrir alla, en allir geta verið til staðar fyrir einhvern. Ef við gefum nánd þá er hún oft eins og smitandi gjöf. Hjón sem eiga nánd sín á milli smita það hegðunarmynstur oft yfir í börnin sín, sem eiga þar af leiðandi betra með nándartengsl við aðra í kringum sig.

Æfum okkur í því að setja okkur í spor annarra, æfum okkur í því að sjá aðra og gefa þeim af tíma okkar og smá brot af hjarta okkar. Reynum að vera dómlaus, verum í staðinn miskunnsöm. Að dæma aðra og vera rógberi er að mínu mati oft vegna skorts á þeirri hæfni að upplifa innlifun, sá einstaklingur sem á erfitt með innlifun hefur oft farið á mis við nándartengsl og einn af ávöxtum þess er dómharka og skert geta til að viðhalda nándarsamböndum. Ef maður er meðvitaður um þessa hluti og hegðunarmynstrið sem því fylgir er þá ekki auðvelt að finna til samúðar og skilnings á viðbrögðum viðkomandi.

Við erum öll einhvern veginn og allir eru á sínu einkaferðalagi í gegnum lífið, reynum því að vera skilningsrík þegar við horfum á ævivegferð annarra og munum að það er alltaf orsök og afleiðing af öllu.

Æfum okkur í nándinni. Stundum þurfum við bara að byrja á einni kisu.

11088353_987113568036916_1058571670940438100_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 19. nóvember 2015

Setjum fólk í fyrsta sæti

Fyrir nokkrum árum síðan var ég að vinna á sólbaðsstofu sem var staðsett við Fógetagarðinn. Ég var einstæð móðir með tvo stráka á grunnskólaaldri. Staða mín var eins og margra annarra í þjóðfélaginu, dálítið erfið.
Ég var með óhagstæð lán, íbúðarlánin mín hækkuðu upp úr öllu valdi og ofan á það komu framkvæmdir á blokkinni sem ég bjó í.  Að auki var ég ekki fær um að vinna 100 prósent vinnu vegna veikinda.

Á þessum tíma var fjárhagur minn ekki upp á sitt besta. Ég viðurkenni alveg að ég vældi yfir stöðu minni og lagðist í sjálfsvorkunn. En ég var móðir og þurfti að taka ábyrgð, ég þurfti að standa mig og gera það besta úr aðstæðunum fyrir mig og börnin mín.

Fyrir utan vinnuna mína voru bekkir, á þeim sat fólk. Stundum nokkrar konur, en oftast voru fleiri karlmenn. Flestir í Fógetagarðinum voru komnir yfir þrítugt það kom þó nokkrum sinnum fyrir að þar voru einstaklingar alveg niður í 18 ára.

Sama hvernig veðrið var þá var yfirleitt alltaf eitthvað líf í Fógetagarðinum, sérstaklega á sumrin, en þá var legið í sólbaði, drukkinn bjór og haft það notalegt. Veturnir voru verri þá var kalt, sumir klæddu sig í kraftgalla, á meðan aðrir reyndu að komast inn í skjól.

Í Fógetagarðinum sat fólk sem átti eftir að kenna mér svo mikið og þá aðallega að þakka fyrir það sem ég átti og hafði. Flestir af þessum einstaklingum höfðu farið aðra braut í lífinu heldur en ég, í flestum tilfellum var það ekki þeirra val heldur sjúkdómur sem stýrði því.

Flestir drukku mikið áfengi, aðrir voru í harðari efnum og svo voru líka einstaklingar sem höfðu verið í neyslu, en voru orðnir edrú. Ég hlustaði á sögurnar þeirra. Margar skemmtilegar, aðrar sorglegar og nokkrar virkilega átakanlegar. Margir áttu sögu sem gerði það að verkum að þeir byrjuðu að drekka. Oft virðist það hafa gerst að átakanlegir hlutir leiddu fólkið út í neysluna til að byrja með og svo fór sjúkdómurinn að taka völdin.

Eftir kynni mín af Fógetagarðinum og lífinu þar þá hætti ég að kvarta yfir mörgum hlutum, ég hætti að vorkenna sjálfri mér og þakkaði betur og meira fyrir það sem ég hafði. Þegar ég sá aðstæður einstaklinga sem höfðu ekki heimili eða rúm til þess að sofa í þá breyttist mitt hugafar mikið. Ég hugsaði um það hvernig lífið væri ef maður gæti ekki farið heim ef það væri ekkert heima því við vitum vel hversu mikils virði heimilið okkar er. Eftir þennan tíma í fógetagarðinum upplifði ég líka margt annað, ég sá hlutina öðruvísi en áður.

Við fæðumst inn í þennan heim, við vorum öll saklaus lítil börn sem lékum okkur, fórum í grunnskóla og fetuðum okkur út í lífið. Sennilega erum við þannig flest að við viljum láta koma fram við okkur af virðingu. Við höfum hvorki rétt til þess að dæma aðra, né til þess að horfa niður á fólk og sýna óvirðingu.

Hvar sem þú ert í lífinu, á hvaða stað þú ert eða hvað sem þú ert að gera þá ertu ekki yfir neinn hafin. Hver einasta persóna hefur sinn rétt, rétt til þess að komið sé fram við hana af virðingu.

Í fjögur ár hef ég lagt mikið í það að bæta aðbúnað þeirra sem hafa orðið utangarðs. Margir þeirra sátu í Fógetagarðinum um árin. Ég nota orðið utangarðs því þessir einstaklingar hafa ekki fengið og fá ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á að fá. Þjónusta við utangarðsfólk þarf að vera meiri og auka þarf úrræðin.

Það er mikið af góðum úrræðum í boði en gríðarleg þörf á fleiri leiðum. Mestu þörfina í dag tel ég vera á úrræðum fyrir einstaklinga sem koma úr meðferð og bíða eftir plássi á öðrum stöðum. Það er mikil þörf á fleiri félagslegum íbúðum og öðru heimili fyrir karlmenn með vímuefnavanda, heimili eins og er í dag á Njálsgötu.

Mín skoðun er sú að það á að setja fólk í fyrsta sæti og aðra hluti þar á eftir. Við þurfum að byrja á því að sporna við fátækt, það eiga allir að eiga sitt heimili og geta framfleytt sér og sínum.

Við viljum betri borg fyrir alla.

13709874_253603535024818_1542273459951045558_n

Alma Rut Lindudóttir var tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2014 í flokknum Til atlögu gegn fordómum.

 

Birt á vefmiðlinum kvennabladid.is, 14. maí 2014.