Stundum þarf bara eina kisu

Það er ekki sú manneskja á jörðinni sem ekki hefur þörf fyrir að vera elskuð, samþykkt og meðtekin eins og hún er, sumir eiga marga að sem mæta þessari þörf en aðrir fáa, jafnvel mjög fáa, Það er samt ekki „fjöldinn“ sem færir okkur lífshamingju heldur „gæðin“ sem við eigum með þeim sem eru við hlið okkar.

Ég sá einu sinni þátt í sjónvarpinu um aldraða einstaklinga á elliheimili, þar var rætt við þau um þá staðreynd að lífsneistinn væri brátt að slokkna og þeirra tími hér í þessu lífi brátt á enda. Það sem var sláandi var einmannaleikinn sem þeir öldruðu bjuggu við, aðstandendur fjarri og starfsfólkið hafði lítinn tíma til að sitja og spjalla af innileika. Það var því aðallega hugsunin um gamla góða tíma og góð tengsl sem yljaði hugann.

Fyrir stuttu talaði ég við unga konu sem var í dálítið svipaðri stöðu og gamla fólkið. Hún lifði við mikinn einmanaleika og von hennar til framtíðarinnar var lítil. Hún átti þó smá vonarneista um að þessi einmanaleiki myndi á einhvern hátt breytast eins og fyrir kraftaverk. Við ræddum með okkur hvað gæti mögulega breytt þessum aðstæðum og komumst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að byrja með litlum skrefum. Nauðsynlegt væri að byggja styrkar undirstöður og mynda hægt og rólega samband aftur við umheiminn og horfna ættingja. Við fundum út í sameiningu að það að eiga kött myndi gefa lífinu breyttan tilgang, með því fengi hún einhvern til að hugsa um og hlúa að, gefa kærleika og um leið þiggja þann kærleika sem kisinn gæti gefið henni með öllu sínu kúri og mali.

Kattholt var heimsótt, pattaraleg kisa ættleidd og þar með var lítil fjölskylda orðin til. Næst þegar við hittumst var kominn nýr neisti í ungu konuna og aukin lífsgleði. Það breytti öllu hjá henni að þurfa ekki að sofna ein heldur hafa kúrandi kisu uppi í hjá sér, að kalla á einhvern sem svaraði og kom hlaupandi á móti henni og hafa einhvern við hlið sér til að strjúka við lestur eða horfa á sjónvarpið. Já, það þarf stundum bara einn lítinn kött til að hreinlega bjarga lífi og geðheilsu einmana sál.

Og þá komum við að þessu sem skiptir svo miklu máli. Nánd er það sem fær okkur til að finna neistann til lífsins. Það er í nándinni sem við upplifum tilgang og löngun til að takast á við lífið, því meiri nánd því meiri lífsneisti, lífsgleði.

Sumir eiga ekki bara dýrmætan kött við hlið sér til að horfa á sjónvarpið, heldur eiga sumir dýrmæt börn, maka, foreldra, vini og svo framvegis, en þrátt fyrir að eiga marga í kringum sig, þá breytir það engu ef ekki er til staðar nándartengsl milli einstaklinganna.

Einstaklingur getur faðmað, getur verið í stórum vinahóp, stundað kynlíf og varið jafnvel öllu lífinu með stórri fjölskyldu án þess að eiga í nándarsambandi. Það að rækta ekki og finna nándartengsl er því miður sorgleg staðreynd í lífi alltof margra.

Innlifun, að setja sig í spor annarra, að „finna fyrir öðrum“ færir okkur nær hvert öðru. Samhygð, að vilja þekkjast og þekkja aðra, að opna fyrir hver maður í raun og veru er, og að sjá og vera séður af öðrum, byggir upp öryggi og nánd. Innlifun leiðir þar af leiðandi til tilfinningalegrar vellíðanar sem eykur lífgleði og lífshamingju.

Þú getur verið konungur í stóru ríki með mörgum þegnum en samt fundið þig einmana og yfirgefinn.

Þegar fólk er í góðum nándartengslum, við þá sem þeim þykir vænt um, eykst framleiðsla heilans á morfíntengdum efnum heilans, endorfinum sem deyfa sársauka og kalla fram vellíðan, Það er aftur á móti mjög sársaukarfullt að lifa við skort á nánd. Ef ekki er til staðar nándarsamband sem maður getur tengt sig við og fundið samhygð, er líklegra að einstaklingurinn leiti í einhvers konar fíkn til að deyfa það sem ekki fær farveg fyrir tilfinningalega.

Það að hafa einhvern að tala við, opna hjarta sitt við og finna samkennd og skilning, er ein af undirstöðum þess að líða vel og upplifa öryggi og samþykkt.

Það skiptir því ekki máli hvort þú ert á áttræðisaldri eða ungt barn, sál allra kallar á nánd.

Verum því til staðar, enginn getur verið til staðar fyrir alla, en allir geta verið til staðar fyrir einhvern. Ef við gefum nánd þá er hún oft eins og smitandi gjöf. Hjón sem eiga nánd sín á milli smita það hegðunarmynstur oft yfir í börnin sín, sem eiga þar af leiðandi betra með nándartengsl við aðra í kringum sig.

Æfum okkur í því að setja okkur í spor annarra, æfum okkur í því að sjá aðra og gefa þeim af tíma okkar og smá brot af hjarta okkar. Reynum að vera dómlaus, verum í staðinn miskunnsöm. Að dæma aðra og vera rógberi er að mínu mati oft vegna skorts á þeirri hæfni að upplifa innlifun, sá einstaklingur sem á erfitt með innlifun hefur oft farið á mis við nándartengsl og einn af ávöxtum þess er dómharka og skert geta til að viðhalda nándarsamböndum. Ef maður er meðvitaður um þessa hluti og hegðunarmynstrið sem því fylgir er þá ekki auðvelt að finna til samúðar og skilnings á viðbrögðum viðkomandi.

Við erum öll einhvern veginn og allir eru á sínu einkaferðalagi í gegnum lífið, reynum því að vera skilningsrík þegar við horfum á ævivegferð annarra og munum að það er alltaf orsök og afleiðing af öllu.

Æfum okkur í nándinni. Stundum þurfum við bara að byrja á einni kisu.

11088353_987113568036916_1058571670940438100_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 19. nóvember 2015