Notum jólamánuðinn í að hlúa að þeim sem minna mega sín

Fíkn tekur á sig margar og mismunandi myndir. Fíknin fer er ekki í manngreinarálit, spyr ekki um stétt eða stöðu og getur vaknað á hvaða aldri sem er. Það sem öll fíkn á þó sameiginlegt er flótti frá tilfinningalegri líðan.

Fíkn framkallar breytingu á ástandi í miðtaugakerfi. Miðtaugakerfið stjórnar m.a. líðan, framkomu og hegðun. Ólíkir hlutar heilans hafa mismunandi störfum að gegna. Þegar ávana- og fíkniefni eru notuð breytist starfsemi þessara stöðva. Kvíði, óánægja, sinnuleysi og tilfinningadeyfð magnast og verða hluti af lífi einstaklingsins. Sjálfsvirðing dofnar og flókið fíknarferli fer af stað. Flótti frá hinni sönnu (tilfinninga)vitund verður meiri og meiri, næmnin til að elska eigið sjálf og aðra, getan til að flokka tilfinningar og hæfnin til að þroska með sér tilfinningagreind staðnar. Doði sest yfir allt tilfinningakerfið og viðkomandi hverfur hægt og sígandi inn í eigin heim og eigin sýn á sjálfið og veröldina alla. Fíkngenið hefur kviknað og stjórnleysið tekið völdin.

Heimurinn sem við lifum í er oft svo harður að það er ekki skrítið að fólk flýi inn í doðann. Áföll, erfiðleikar og allar þessar væntingar um eigin getu til að takast á við lífið, starfið, námið og allt annað sem lífsgangan hefur upp á bjóða er bein ávísun á að þurfa að upplifa sársauka, höfnun, brostnar vonir og skömm yfir að standast ekki væntingar … og þannig er nú bara lífið.

Lífið er eitt stórt tilfinningaferðalag með öllum þeim sorgar- og gleðistundum sem það hefur upp á að bjóða. Enginn kemst undan því að sorgin í sínum mismunandi myndum banki upp á og sem betur fer fá flestallir að upplifa sinn ljúfa skerf af því að fá að opna fyrir dyrum hamingjunnar. Sumir fá þó að upplifa þyngri sorgir og meiri en aðrir og hafa jafnvel ekki fengið gott veganesti út í lífið. Allt það hefur áhrif og vegur þungt á vogarskálunum, sem getur orðið til þess að ýta undir flóttann inn í fíknina.

Það ætti því að vera auðvelt að sýna samkennd með þeim sem hafa orðið fíkninni að bráð, ef hægt væri að sjá hana með þeim augum að einhvers staðar á leiðinni gafst viðkomandi hreinlega upp og ákvað að flýja undan innri vanlíðan og ótta.

Það er aldrei barnsins draumur að verða fíkninni að bráð, sakleysið á alltaf fagra, ómengaða framtíðarsýn. Enginn vill vera fangi fíknarinnar.

Einu sinni voru þessi einlægu orð sögð við mig, „ég get ekki snúið til baka, leiðin til baka er of löng og brýrnar allar brunnar, ég hef ekki lengur getu til að vinna mér inn ÁST og VIRÐINGU þeirra sem skipta mig máli“. Í mínum huga segja þessi orð allt sem segja þarf um hvað við sem sálir þráum fyrst og fremst í lífinu og hver undirstaða lífsins er … þ.e.a.s. að fá að elska aðra og að ást okkar sé móttekin. Að fá að upplifa ást sem okkur er gefin skilyrðislaust af þeim sem eru í kringum okkur. Virðing fyrir okkur sem sál, manneskju, okkar mannlega eðli og (viðkvæmri) lífsgöngu okkar er það sem skiptir mestu máli sama hvernig lífsferð okkar eða staða í samfélaginu er.

Það er á ábyrgð okkar allra að sýna þeim sem heyja þessa baráttu mannúð. Með því að gefa þá endurgjaldslausu gjöf byggjum við brýr fyrir aðra til að koma til baka og við gefum þeim þessa von um að þora að gefast upp og koma „heim“.

Við sem sáum Samhjálparsöfnunina á stöð 2 urðum vitni að því hversu nauðsynlegt störf sem slík eru, og um leið vorum við minnt á hve þörfin er mikil.“

Núna þegar dimmur veturinn hefur skollið á, þá eykst á sama tíma myrkrið og vonleysið í lífi margra. Öll getum við tekið þátt í að hlúa að þeim sem berjast á þessum vígstöðvum, hvort sem er að fara með föt niður í Konukot eða færa heimilislausum mat. Verum því vakandi yfir því sem við getum gert til að hafa áhrif til góðs hvort sem er með tíma okkar eða fjármunum.

Notum jólamánuðinn (sem og auðvitað alla aðra mánuði) í að hlúa að þeim sem minna mega sín.

12696277_1102878549793750_461250977_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 11. desember 2015