Finnum samkenndina um jólin

Margir kannast við að gátlistinn lengist þegar jólin nálgast. Við teljum okkur trú um að þurfa að klára hann svo jólin verði fullkomin. Þrífa allt, baka, þræða á milli búða, mæta í jólaboð, fara á jólasýningar o.s.frv.

Margt er ómissandi og ánægjulegt í jólaundirbúningnum og liður í að komast í jólaskap með fjölskyldu og vinum. En stundum getur tilstandið orðið það mikið að það vex okkur yfir höfuð og okkur finnst við ekki ráða við aðstæður. Við förum að hafa áhyggjur af öllu sem við eigum eftir að gera sem við komumst ekki yfir með góðu móti. Það getur valdið streitu, kvíða, vansæld og svefnleysi sem síðan getur haft slæm áhrif á heilsuna.

Ef við erum meðvituð um hvernig okkur líður þá eru meiri líkur á að við endurskoðum hvað það er sem við teljum okkur þurfa að gera til að upplifa ánægju af jólaundirbúningnum. Hvað er mikilvægt og hverju má sleppa? Vel valdar gjafir, sem sprengja ekki vísareikninginn, gefnar með gleði og kærleika eru mikils virði. Samvera eða samtal skila dýrmætum minningum. Jólailmurinn af hangikjötinu, greninu eða kökuilmurinn, ef við höfum tíma til að baka, gefa jólastemmingu. Tiltekt og skreytingar ættu líka að vera fyrst og fremst ánægjulegar.

Hægt er að gera margt fallegt án þess að ofgera neinu, til dæmis kveikja á kertum. Við leyfum okkur meira í mat og drykk um jólin en hófsemi er öllum góð. Jólin koma þó svo að við höfum ekki klárað listann. Því er mikilvægast að við njótum líðandi stundar í aðdraganda jólanna. Hugsum um fjölskyldu og vini, náungann og til þeirra sem minna mega sín.

Með jákvæðum hugsunum til mannkyns alls og jarðarinnar finnum við fyrir samkennd. Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin getum við upplifað hvernig andartakið verður heilagt, vitandi að kærleikur og friður jólanna er innra með okkur. Hin fullkomnu jól.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots. 

Birt í Reykjavík vikurblað 19. desember 2015.