Kvíði og þunglyndi helsta kvöl ungmenna í dag

climbing helping team work , success concept

Frá því við opnuðum Lýðheilsusetrið Ljósbrot hefur fjöldi ungs fólks leitað til okkar vegna kvíða, þunglyndis, félagsfælni og fíknar af ýmsu tagi. Öll eiga það sameiginlegt að þrá að komast út í lífið og verða virk og hamingjusöm. Við höfum rekist á að þau sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna eru öll með mikinn kvíða og vanlíðan sem hefur haft þau áhrif að draga úr virkni þeirra í skóla og vinnu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur að geðrænir sjúkdómar verði ríkjandi árið 2030 og að fjöldi þeirra sem þurfi að kljást við þunglyndi, kvíða eða depurð einhvern tíma á ævinni muni fara vaxandi sem er
En sem betur fer eru til lausnir og það er viðfangsefni okkar hér í Lýðheilsusetrinu Ljósbrot. Við vinnum með unga fólkinu að almennri heilsueflingu og notum við það hugleiðslur eins og mindfulness, self compassion og jákvæða sálfræði. Lýðheilsusetrið Ljósbrot hefur verið að bjóða upp á ókeypis námskeið sem við köllum Pepp upp til þess að mæta þörfum unga fólksins.
Flest öll segja að þeim líði miklu betur eftir að hafa hugleitt og geti gripið til hugleiðslunnar hvenær sem þau þurfa á að halda. Eins leggjum við upp úr góðri næringu og hreyfingu. Þetta eru fyrstu skrefin til að byggja upp ungt fólk til að komast að það ástand að vera í “ESSINU” sínu eins og við köllum það, hamingjusöm og farsæl.
Allir geta upplifað vanlíðan og dagsform okkar er í bylgjum. En ef við finnum að við erum hætt að njóta þess sem okkur fannst gaman að gera, finnum fyrir breytingum á svefn- og matarvenjum, treystum okkur ekki til að hitta vini og kunningja eða fara í skóla eða í vinnu, þá er full ástæða að skoða hvað sé í gangi.

Kolbrún Ingibergsdóttir

FullSizeRender

Kolbrún Ingibergsdóttir er annar stofnandi og leiðbeinandi  hjá Lýðheilsusetrinu Ljósbrot. Hún hefur starfað við fjölmiðla í yfir 20 ár bæði sem blaðamaður og stjórnandi. Kolbrún er menntaður þroskaþjálfi. Þá nam hún Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við Háskóla Íslands. Að auki hefur Kolbrún sótt fjölmörg námskeið og ráðstefnur bæði um lýðheilsu og hugrækt, má þarf nefna Chris Germer í „self compassion“ og hún hefur lokið 8 vikna núvitundarnámskeiði.

Elísabet Gísladóttir

Elisabet-1-198x300

Elísabet Gísladóttir er annar stofnandi og leiðbeinandi hjá Lýðheilsusetrinu Ljósbrot þar sem hún m.a. nýtir hugrækt til að þjálfa ungt fólk sem að einhverjum orsökum hefur fallið úr skóla eða hefur ekki náð að fóta sig í lífinu, auk þess að bjóða námskeið sem byggja á fjölbreyttri hugrækt fyrir alla aldurshópa. Elísabet er með mastergráðu í lýðheilsuvísindum MPH en ritgerð hennar var kerfisbundin fræðileg samantekt á áhrifum núvitundar (Mindfulness) á þunglyndi, kvíða og streitu. Elísabet starfar sem djákni í Sóltúni. Hún er með diplóma á MA í sálgæslu og fötlunarfræðum. Þá er Elísabet með kennsluréttindi og menntaður iðnrekstrarfræðingur.

Elísabet hefur iðkað og leiðbeint ýmsar tegundir hugræktar, bæði hér á landi og erlendis í um 40 ár.

Elísabet sat í stýrihóp um innleiðingu á heilsueflandi leik- grunn og frístund fyrir hönd Reykjavíkurborgar 2015-2016 enda hefur hún brennandi áhuga á lýðheilsu, hugrækt,  almennri heilsueflingu og hamingju fólks og vill leggja sitt af mörkum að efla almenna vellíðan og hamingju fólks á öllum aldri.

 

 

Fimmtán atriði sem stuðla að árangri og ánægju í vinnu/námi hvern dag

friendsgrouplogo

Vinsældir hugræktar hafa vaxið mjög á síðustu misserum. Fólk gerir sér æ betur grein fyrir því að ástundun hugræktar er jafn mikilvæg og ástundun líkamsræktar. Mörgum hefur þó fundist erfitt að samhæfa hugrækt að lífi og starfi. Hafa ber í huga að ástundun hugræktar er langhlaup sem aldrei er of seint að hefja. Hér er ein hugmynd að góðum degi.

1. Byrjaðu daginn með 10 mínútna núvitundar-hugleiðslu.

2. Taktu þér tíma til að njóta að borða morgunmatinn heima.

3. Minntu þig á, hvern dag, að þakka fyrir að vera á lífi og eiga næstu nýju 24 klukkustundir lífsins.

4. Forðastu að skipta tíma þínum í „minn tíma“ og „vinnutíma“. Allur tími getur verið þinn tími ef þú dvelur í núinu og ert í sambandi við það sem er að gerast í líkama þínum og huga. Það er engin ástæða til þess að tíminn í vinnunni ætti að vera minna skemmtilegri en tíminn annars staðar.

5. Reyndu að standast þá löngun að hringja í farsímann á leið til eða frá vinnu eða á stefnumót. Nýttu þér þennan tíma til að vera í núinu, náttúrunni og heiminum.

6. Finndu stað og stund í vinnunni þar sem þú getur fundið frið, tekið hlé og hvílst andartak. Taktu reglulega örstutt öndunar hlé til að tengjast líkama þínum og til að koma hugsunum þínum aftur í núið til að vera einbeitt/ einbeittur.

7. Borðaðu matinn í hádeginu í friði og ró. Ekki borða á skrifborðinu þínu eða á hlaupum. Breyttu um umhverfi. Stuttur göngutúr er góður kostur.

8. Gerðu kaffitímann sérstakan. Með því að hætta að vinna og líta djúpt í kaffið/teið/drykkinn til að sjá allt sem fór í að skapa hann: Skýin og rigninguna, plantekruna, starfsmennina og uppskeruna.

9. Fyrir fundi er gott að sjá fyrir sér frið- sælt umhverfi sem gefur þér innri ró, ró sem fylgir þér inn á fundinn.

10. Ef þú upplifir reiði eða pirring forðastu þá að segja eða gera nokkuð strax. Best er að draga djúpt andann og fylla líkamann af yfirvegun.

11. Sjáum allt samstarfsfólk okkar sem bandamenn. Samvinna skapar meiri ánægju og gleði en að vinna einn og sér. Með það að leiðarljósi að árangur og hamingja allra hinna sé þinn árangur.

12. Ástundaðu þakklæti til samstarfsmanna þinna fyrir jákvæða eiginleika þeirra. Þetta mun breyta öllu vinnuumhverfinu og skapa jafnvægi og ánægju fyrir alla.

13. Mikilvægt er að vera meðvituð/með- vitaður um að slaka á og endurheimta sjálfan sig áður en farið er heim til að bera ekki neikvæða orku eða gremju með sér.

14. Sumum finnst gott að taka sér tíma til að slaka á þegar komið er heim áður en hafist er handa við húsverkin eða sinna börnum. Mikill misskilningur er að „multitask“ skili góðum afköstum. Þá ert þú aldrei fullkomlega til staðar í neinu. Gerum einn hlut í einu og gefum honum fulla athygli.

15. Í lok dags, er gott að halda dagbók yfir alla góðu hluti dagsins. Hlúðu að gleðinni og þakklætinu reglulega svo það geti vaxið enn frekar og orðið veganesti næsta dags.

Í lauslegri þýðingu Elísabetar Gísladóttur úr úr Huff post Work Well redefining success.

Nýtt upphaf – ný tækifæri

Elisabet-1-198x300

Nýtt ár markar ntt upphaf, ný tækifæri og margir strengja heit á þessum tímamótum. Oft er það eitthvað sem snýst um að breyta lífi okkar til batnaðar.

Í nýlegri rannsókn á „árangri áramótaheita“, kemur fram að rúmlega 70% einstaklinga ná ekki að halda út nema í stuttan tíma. Heimspekingurinn og sálfræðingurinn William James sagði: „Til að gera breytingar á lífi okkar, verðum við gera það með áþreifanlegum hætti með glans en engum væntingum“. Þegar við veltum því fyrir okkur af hverju við setjum okkur
markmið eða áramótaheit, þá er ástæðan sú að við viljum vera hamingjusamari. Þá er næsta spurning: Hvað er það sem gerir okkur raunverulega hamingjusöm? Er það heilbrigðari lífsstíll, sveigjanleiki í vinnu eða vinna sem hentar fjölskyldunni betur? Auka herbergi í íbúð? Barn? Líta út fyrir að vera yngri? Lausn frá líkamlegum verkjum? Að léttast? Vera laus við slæma ávana? Að börnunum okkar gangi vel í skólanum? Vita hvað við viljum í raun gera við líf okkar? Vera meira styðjandi og umvefjandi foreldri eða aðstandandi? Læknast af illvígum sjúkdómi eða fötlun? Meiri peninga? Meiri tíma? Þetta eru algengustu svörin sem ég hef heyrt í gegnum árin. Ekkert af þessu gerir gæfumunin til að verða hamingjusamari.

Í rannsókn Sonju Lyubomirsky á þessu efni kemur fram að til að öðlast það líf sem við þráum þurfum við að vinna að því. Það er líka vinna að viðhalda hamingjunni þegar við höfum fundið hana. Sonja segir að til að ná raunverulegum markmiðum sé um að ræða þrjá misáhrifamikla meginþætti. Það að setja sér markmið vegur 50%, vinnan sem við leggjum í að ná markmiðum okkar er 40% og kringumstæður hvers og eins vega 10%. Þetta þýðir að við höfum heilmikið um það að segja um það hvort við náum markmiðum okkar og öðlumst hamingju.

Markmiðið sem við setjum okkur þurfa þau að vera vel skilgreind, mælanleg, viðráðanleg, raunhæf og tímasett. Sannleikurinn er sá að ef við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að setja stefnuna marvisst og meðvitað á að verða hamingjusamari þá gengur allt annað mikið betur líka. Fyrsta skrefið er að ákveða að vera hamingjusöm/samur og sjá það jákvæða í lífinu í kringum okkur. Þetta geta verið litlu kraftaverkin, eins og falleg sólarupprás, bros frá fjölskyldu og vinum, fyrsta djúpa öndunin þegar við vöknum að morgni og finnum að við erum á lífi. Annað skrefið er að vinna í því að vera jákvæð/ur og skila jákvæðni og samkennd til náungans og til þín. Velta því fyrir sér hverju það skilar, að koma fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig. Fara sátt/ur að sofa og vakna til nýs lífs að morgni með það að markmiði að láta þá stundina og þann daginn verða þann þann besta í lífinu. Og sjáðu hvað gerist!

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots.

Birt í Reykjavík vikublað 9. janúar 2016

Finnum samkenndina um jólin

Margir kannast við að gátlistinn lengist þegar jólin nálgast. Við teljum okkur trú um að þurfa að klára hann svo jólin verði fullkomin. Þrífa allt, baka, þræða á milli búða, mæta í jólaboð, fara á jólasýningar o.s.frv.

Margt er ómissandi og ánægjulegt í jólaundirbúningnum og liður í að komast í jólaskap með fjölskyldu og vinum. En stundum getur tilstandið orðið það mikið að það vex okkur yfir höfuð og okkur finnst við ekki ráða við aðstæður. Við förum að hafa áhyggjur af öllu sem við eigum eftir að gera sem við komumst ekki yfir með góðu móti. Það getur valdið streitu, kvíða, vansæld og svefnleysi sem síðan getur haft slæm áhrif á heilsuna.

Ef við erum meðvituð um hvernig okkur líður þá eru meiri líkur á að við endurskoðum hvað það er sem við teljum okkur þurfa að gera til að upplifa ánægju af jólaundirbúningnum. Hvað er mikilvægt og hverju má sleppa? Vel valdar gjafir, sem sprengja ekki vísareikninginn, gefnar með gleði og kærleika eru mikils virði. Samvera eða samtal skila dýrmætum minningum. Jólailmurinn af hangikjötinu, greninu eða kökuilmurinn, ef við höfum tíma til að baka, gefa jólastemmingu. Tiltekt og skreytingar ættu líka að vera fyrst og fremst ánægjulegar.

Hægt er að gera margt fallegt án þess að ofgera neinu, til dæmis kveikja á kertum. Við leyfum okkur meira í mat og drykk um jólin en hófsemi er öllum góð. Jólin koma þó svo að við höfum ekki klárað listann. Því er mikilvægast að við njótum líðandi stundar í aðdraganda jólanna. Hugsum um fjölskyldu og vini, náungann og til þeirra sem minna mega sín.

Með jákvæðum hugsunum til mannkyns alls og jarðarinnar finnum við fyrir samkennd. Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin getum við upplifað hvernig andartakið verður heilagt, vitandi að kærleikur og friður jólanna er innra með okkur. Hin fullkomnu jól.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots. 

Birt í Reykjavík vikurblað 19. desember 2015.

Leikur lífsins

Hvenær hættir þú að leika þér? Hefur þú velt fyrir þér hver sé tilgangurinn með „leik lífsins“ og hvernig við getum leikið hann til fullnustu?

Mörgum finnst við tímalaus, áhyggjufull, að okkur skorti svo margt sem við teljum okkur þurfa nauðsynlega. Sífellt bætist við listann sem við teljum okkur þurfa að ná til að öðlast hamingju. Þetta gerum við ómeðvitað til að fylla upp í skortinn sem er oft innra með okkur.

Í hraða nútí
mans gleymum við oft að lífið er endalaust ævintýri. Við sjáum oft ekki að lífið er uppfullt af tækifærum. Nú gæti eflaust einhver sagt: „Nei, þetta er ekki rétt, líttu á allar hörmungarnar í heiminum! Það eru margir sem hafa ekki möguleika á að upplifa lífið sem ævintýri.“ Allir eiga rétt á tækifærum og hafa fulla ástæðu til að leyfa sér að eiga góðar stundir á hverjum degi fjarri amstri og áhyggjum dagsins.

Allt sem þarf er að leyfa sér að taka eftir undrunum og fegurðinni í kringum sig eins og stjörnunum, sólsetrinu, fjöllunum, skýjunum, kertaljósunum, listunum … Við þurfum aðeins að staldra við, draga djúpt inn andann og leyfa okkur að njóta og hlaða þannig batteríin. Við höfum fjálsan vilja sem enginn getur tekið frá okkur í hvaða aðstæðum sem við erum. Við getum einfaldlega ákveðið að æfa okkur í að koma auga á eitthvað jákvætt í lífinu. Viðhorf okkar og hugsun getum við sjálf ákveðið að stjórna.
Við þurfum að átta okkur á að lífið er takmarkalaust, það er frítt, ótrúlega spennandi og býður upp á ný undur á hverjum degi. Við þurfum bara að taka eftir þeim með því að stoppa og gefa okkur andartak til að koma auga á töfrana hið innra sem ytra, upplifa og taka fullan þátt í leik lífsins.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdastjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots.

Birt í Reykjavík vikurblað 12. desember 2015

Notum jólamánuðinn í að hlúa að þeim sem minna mega sín

Fíkn tekur á sig margar og mismunandi myndir. Fíknin fer er ekki í manngreinarálit, spyr ekki um stétt eða stöðu og getur vaknað á hvaða aldri sem er. Það sem öll fíkn á þó sameiginlegt er flótti frá tilfinningalegri líðan.

Fíkn framkallar breytingu á ástandi í miðtaugakerfi. Miðtaugakerfið stjórnar m.a. líðan, framkomu og hegðun. Ólíkir hlutar heilans hafa mismunandi störfum að gegna. Þegar ávana- og fíkniefni eru notuð breytist starfsemi þessara stöðva. Kvíði, óánægja, sinnuleysi og tilfinningadeyfð magnast og verða hluti af lífi einstaklingsins. Sjálfsvirðing dofnar og flókið fíknarferli fer af stað. Flótti frá hinni sönnu (tilfinninga)vitund verður meiri og meiri, næmnin til að elska eigið sjálf og aðra, getan til að flokka tilfinningar og hæfnin til að þroska með sér tilfinningagreind staðnar. Doði sest yfir allt tilfinningakerfið og viðkomandi hverfur hægt og sígandi inn í eigin heim og eigin sýn á sjálfið og veröldina alla. Fíkngenið hefur kviknað og stjórnleysið tekið völdin.

Heimurinn sem við lifum í er oft svo harður að það er ekki skrítið að fólk flýi inn í doðann. Áföll, erfiðleikar og allar þessar væntingar um eigin getu til að takast á við lífið, starfið, námið og allt annað sem lífsgangan hefur upp á bjóða er bein ávísun á að þurfa að upplifa sársauka, höfnun, brostnar vonir og skömm yfir að standast ekki væntingar … og þannig er nú bara lífið.

Lífið er eitt stórt tilfinningaferðalag með öllum þeim sorgar- og gleðistundum sem það hefur upp á að bjóða. Enginn kemst undan því að sorgin í sínum mismunandi myndum banki upp á og sem betur fer fá flestallir að upplifa sinn ljúfa skerf af því að fá að opna fyrir dyrum hamingjunnar. Sumir fá þó að upplifa þyngri sorgir og meiri en aðrir og hafa jafnvel ekki fengið gott veganesti út í lífið. Allt það hefur áhrif og vegur þungt á vogarskálunum, sem getur orðið til þess að ýta undir flóttann inn í fíknina.

Það ætti því að vera auðvelt að sýna samkennd með þeim sem hafa orðið fíkninni að bráð, ef hægt væri að sjá hana með þeim augum að einhvers staðar á leiðinni gafst viðkomandi hreinlega upp og ákvað að flýja undan innri vanlíðan og ótta.

Það er aldrei barnsins draumur að verða fíkninni að bráð, sakleysið á alltaf fagra, ómengaða framtíðarsýn. Enginn vill vera fangi fíknarinnar.

Einu sinni voru þessi einlægu orð sögð við mig, „ég get ekki snúið til baka, leiðin til baka er of löng og brýrnar allar brunnar, ég hef ekki lengur getu til að vinna mér inn ÁST og VIRÐINGU þeirra sem skipta mig máli“. Í mínum huga segja þessi orð allt sem segja þarf um hvað við sem sálir þráum fyrst og fremst í lífinu og hver undirstaða lífsins er … þ.e.a.s. að fá að elska aðra og að ást okkar sé móttekin. Að fá að upplifa ást sem okkur er gefin skilyrðislaust af þeim sem eru í kringum okkur. Virðing fyrir okkur sem sál, manneskju, okkar mannlega eðli og (viðkvæmri) lífsgöngu okkar er það sem skiptir mestu máli sama hvernig lífsferð okkar eða staða í samfélaginu er.

Það er á ábyrgð okkar allra að sýna þeim sem heyja þessa baráttu mannúð. Með því að gefa þá endurgjaldslausu gjöf byggjum við brýr fyrir aðra til að koma til baka og við gefum þeim þessa von um að þora að gefast upp og koma „heim“.

Við sem sáum Samhjálparsöfnunina á stöð 2 urðum vitni að því hversu nauðsynlegt störf sem slík eru, og um leið vorum við minnt á hve þörfin er mikil.“

Núna þegar dimmur veturinn hefur skollið á, þá eykst á sama tíma myrkrið og vonleysið í lífi margra. Öll getum við tekið þátt í að hlúa að þeim sem berjast á þessum vígstöðvum, hvort sem er að fara með föt niður í Konukot eða færa heimilislausum mat. Verum því vakandi yfir því sem við getum gert til að hafa áhrif til góðs hvort sem er með tíma okkar eða fjármunum.

Notum jólamánuðinn (sem og auðvitað alla aðra mánuði) í að hlúa að þeim sem minna mega sín.

12696277_1102878549793750_461250977_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 11. desember 2015

Stundum þarf bara eina kisu

Það er ekki sú manneskja á jörðinni sem ekki hefur þörf fyrir að vera elskuð, samþykkt og meðtekin eins og hún er, sumir eiga marga að sem mæta þessari þörf en aðrir fáa, jafnvel mjög fáa, Það er samt ekki „fjöldinn“ sem færir okkur lífshamingju heldur „gæðin“ sem við eigum með þeim sem eru við hlið okkar.

Ég sá einu sinni þátt í sjónvarpinu um aldraða einstaklinga á elliheimili, þar var rætt við þau um þá staðreynd að lífsneistinn væri brátt að slokkna og þeirra tími hér í þessu lífi brátt á enda. Það sem var sláandi var einmannaleikinn sem þeir öldruðu bjuggu við, aðstandendur fjarri og starfsfólkið hafði lítinn tíma til að sitja og spjalla af innileika. Það var því aðallega hugsunin um gamla góða tíma og góð tengsl sem yljaði hugann.

Fyrir stuttu talaði ég við unga konu sem var í dálítið svipaðri stöðu og gamla fólkið. Hún lifði við mikinn einmanaleika og von hennar til framtíðarinnar var lítil. Hún átti þó smá vonarneista um að þessi einmanaleiki myndi á einhvern hátt breytast eins og fyrir kraftaverk. Við ræddum með okkur hvað gæti mögulega breytt þessum aðstæðum og komumst að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að byrja með litlum skrefum. Nauðsynlegt væri að byggja styrkar undirstöður og mynda hægt og rólega samband aftur við umheiminn og horfna ættingja. Við fundum út í sameiningu að það að eiga kött myndi gefa lífinu breyttan tilgang, með því fengi hún einhvern til að hugsa um og hlúa að, gefa kærleika og um leið þiggja þann kærleika sem kisinn gæti gefið henni með öllu sínu kúri og mali.

Kattholt var heimsótt, pattaraleg kisa ættleidd og þar með var lítil fjölskylda orðin til. Næst þegar við hittumst var kominn nýr neisti í ungu konuna og aukin lífsgleði. Það breytti öllu hjá henni að þurfa ekki að sofna ein heldur hafa kúrandi kisu uppi í hjá sér, að kalla á einhvern sem svaraði og kom hlaupandi á móti henni og hafa einhvern við hlið sér til að strjúka við lestur eða horfa á sjónvarpið. Já, það þarf stundum bara einn lítinn kött til að hreinlega bjarga lífi og geðheilsu einmana sál.

Og þá komum við að þessu sem skiptir svo miklu máli. Nánd er það sem fær okkur til að finna neistann til lífsins. Það er í nándinni sem við upplifum tilgang og löngun til að takast á við lífið, því meiri nánd því meiri lífsneisti, lífsgleði.

Sumir eiga ekki bara dýrmætan kött við hlið sér til að horfa á sjónvarpið, heldur eiga sumir dýrmæt börn, maka, foreldra, vini og svo framvegis, en þrátt fyrir að eiga marga í kringum sig, þá breytir það engu ef ekki er til staðar nándartengsl milli einstaklinganna.

Einstaklingur getur faðmað, getur verið í stórum vinahóp, stundað kynlíf og varið jafnvel öllu lífinu með stórri fjölskyldu án þess að eiga í nándarsambandi. Það að rækta ekki og finna nándartengsl er því miður sorgleg staðreynd í lífi alltof margra.

Innlifun, að setja sig í spor annarra, að „finna fyrir öðrum“ færir okkur nær hvert öðru. Samhygð, að vilja þekkjast og þekkja aðra, að opna fyrir hver maður í raun og veru er, og að sjá og vera séður af öðrum, byggir upp öryggi og nánd. Innlifun leiðir þar af leiðandi til tilfinningalegrar vellíðanar sem eykur lífgleði og lífshamingju.

Þú getur verið konungur í stóru ríki með mörgum þegnum en samt fundið þig einmana og yfirgefinn.

Þegar fólk er í góðum nándartengslum, við þá sem þeim þykir vænt um, eykst framleiðsla heilans á morfíntengdum efnum heilans, endorfinum sem deyfa sársauka og kalla fram vellíðan, Það er aftur á móti mjög sársaukarfullt að lifa við skort á nánd. Ef ekki er til staðar nándarsamband sem maður getur tengt sig við og fundið samhygð, er líklegra að einstaklingurinn leiti í einhvers konar fíkn til að deyfa það sem ekki fær farveg fyrir tilfinningalega.

Það að hafa einhvern að tala við, opna hjarta sitt við og finna samkennd og skilning, er ein af undirstöðum þess að líða vel og upplifa öryggi og samþykkt.

Það skiptir því ekki máli hvort þú ert á áttræðisaldri eða ungt barn, sál allra kallar á nánd.

Verum því til staðar, enginn getur verið til staðar fyrir alla, en allir geta verið til staðar fyrir einhvern. Ef við gefum nánd þá er hún oft eins og smitandi gjöf. Hjón sem eiga nánd sín á milli smita það hegðunarmynstur oft yfir í börnin sín, sem eiga þar af leiðandi betra með nándartengsl við aðra í kringum sig.

Æfum okkur í því að setja okkur í spor annarra, æfum okkur í því að sjá aðra og gefa þeim af tíma okkar og smá brot af hjarta okkar. Reynum að vera dómlaus, verum í staðinn miskunnsöm. Að dæma aðra og vera rógberi er að mínu mati oft vegna skorts á þeirri hæfni að upplifa innlifun, sá einstaklingur sem á erfitt með innlifun hefur oft farið á mis við nándartengsl og einn af ávöxtum þess er dómharka og skert geta til að viðhalda nándarsamböndum. Ef maður er meðvitaður um þessa hluti og hegðunarmynstrið sem því fylgir er þá ekki auðvelt að finna til samúðar og skilnings á viðbrögðum viðkomandi.

Við erum öll einhvern veginn og allir eru á sínu einkaferðalagi í gegnum lífið, reynum því að vera skilningsrík þegar við horfum á ævivegferð annarra og munum að það er alltaf orsök og afleiðing af öllu.

Æfum okkur í nándinni. Stundum þurfum við bara að byrja á einni kisu.

11088353_987113568036916_1058571670940438100_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 19. nóvember 2015

Setjum fólk í fyrsta sæti

Fyrir nokkrum árum síðan var ég að vinna á sólbaðsstofu sem var staðsett við Fógetagarðinn. Ég var einstæð móðir með tvo stráka á grunnskólaaldri. Staða mín var eins og margra annarra í þjóðfélaginu, dálítið erfið.
Ég var með óhagstæð lán, íbúðarlánin mín hækkuðu upp úr öllu valdi og ofan á það komu framkvæmdir á blokkinni sem ég bjó í.  Að auki var ég ekki fær um að vinna 100 prósent vinnu vegna veikinda.

Á þessum tíma var fjárhagur minn ekki upp á sitt besta. Ég viðurkenni alveg að ég vældi yfir stöðu minni og lagðist í sjálfsvorkunn. En ég var móðir og þurfti að taka ábyrgð, ég þurfti að standa mig og gera það besta úr aðstæðunum fyrir mig og börnin mín.

Fyrir utan vinnuna mína voru bekkir, á þeim sat fólk. Stundum nokkrar konur, en oftast voru fleiri karlmenn. Flestir í Fógetagarðinum voru komnir yfir þrítugt það kom þó nokkrum sinnum fyrir að þar voru einstaklingar alveg niður í 18 ára.

Sama hvernig veðrið var þá var yfirleitt alltaf eitthvað líf í Fógetagarðinum, sérstaklega á sumrin, en þá var legið í sólbaði, drukkinn bjór og haft það notalegt. Veturnir voru verri þá var kalt, sumir klæddu sig í kraftgalla, á meðan aðrir reyndu að komast inn í skjól.

Í Fógetagarðinum sat fólk sem átti eftir að kenna mér svo mikið og þá aðallega að þakka fyrir það sem ég átti og hafði. Flestir af þessum einstaklingum höfðu farið aðra braut í lífinu heldur en ég, í flestum tilfellum var það ekki þeirra val heldur sjúkdómur sem stýrði því.

Flestir drukku mikið áfengi, aðrir voru í harðari efnum og svo voru líka einstaklingar sem höfðu verið í neyslu, en voru orðnir edrú. Ég hlustaði á sögurnar þeirra. Margar skemmtilegar, aðrar sorglegar og nokkrar virkilega átakanlegar. Margir áttu sögu sem gerði það að verkum að þeir byrjuðu að drekka. Oft virðist það hafa gerst að átakanlegir hlutir leiddu fólkið út í neysluna til að byrja með og svo fór sjúkdómurinn að taka völdin.

Eftir kynni mín af Fógetagarðinum og lífinu þar þá hætti ég að kvarta yfir mörgum hlutum, ég hætti að vorkenna sjálfri mér og þakkaði betur og meira fyrir það sem ég hafði. Þegar ég sá aðstæður einstaklinga sem höfðu ekki heimili eða rúm til þess að sofa í þá breyttist mitt hugafar mikið. Ég hugsaði um það hvernig lífið væri ef maður gæti ekki farið heim ef það væri ekkert heima því við vitum vel hversu mikils virði heimilið okkar er. Eftir þennan tíma í fógetagarðinum upplifði ég líka margt annað, ég sá hlutina öðruvísi en áður.

Við fæðumst inn í þennan heim, við vorum öll saklaus lítil börn sem lékum okkur, fórum í grunnskóla og fetuðum okkur út í lífið. Sennilega erum við þannig flest að við viljum láta koma fram við okkur af virðingu. Við höfum hvorki rétt til þess að dæma aðra, né til þess að horfa niður á fólk og sýna óvirðingu.

Hvar sem þú ert í lífinu, á hvaða stað þú ert eða hvað sem þú ert að gera þá ertu ekki yfir neinn hafin. Hver einasta persóna hefur sinn rétt, rétt til þess að komið sé fram við hana af virðingu.

Í fjögur ár hef ég lagt mikið í það að bæta aðbúnað þeirra sem hafa orðið utangarðs. Margir þeirra sátu í Fógetagarðinum um árin. Ég nota orðið utangarðs því þessir einstaklingar hafa ekki fengið og fá ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á að fá. Þjónusta við utangarðsfólk þarf að vera meiri og auka þarf úrræðin.

Það er mikið af góðum úrræðum í boði en gríðarleg þörf á fleiri leiðum. Mestu þörfina í dag tel ég vera á úrræðum fyrir einstaklinga sem koma úr meðferð og bíða eftir plássi á öðrum stöðum. Það er mikil þörf á fleiri félagslegum íbúðum og öðru heimili fyrir karlmenn með vímuefnavanda, heimili eins og er í dag á Njálsgötu.

Mín skoðun er sú að það á að setja fólk í fyrsta sæti og aðra hluti þar á eftir. Við þurfum að byrja á því að sporna við fátækt, það eiga allir að eiga sitt heimili og geta framfleytt sér og sínum.

Við viljum betri borg fyrir alla.

13709874_253603535024818_1542273459951045558_n

Alma Rut Lindudóttir var tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2014 í flokknum Til atlögu gegn fordómum.

 

Birt á vefmiðlinum kvennabladid.is, 14. maí 2014.