Nýtt Pepp upp námskeið í janúar 2019

Nýtt Pepp Upp hefst á nýju ári um miðjan febrúar 2019.

Um er að ræða 16. vikna námskeið. Fyrstu 8 vikurnar einkennast af gleði, hópefli, og skemmtun sem upphaf til að virkja nemendur. Til leiks mæta frábærir fyrirlesarar og þjóðþekktir einstaklingar. Nemendur eru þjálfaðir í hugrækt, jákvæðri sálfræði, valdeflingu og markþjálfun svo eitthvað sé nefnt. Að auki er lagður góður grunnur að hollri næringu og læra að meta lífið og það sem það býður upp á.

skor

Seinni 8 vikurnar eru unnið markvisst með nemendum að ná markmiðum sínum og framtíðarsýn. Nemendur fá þjálfun í gegnum hlutverkaleiki í þeim tilgangi að undirbúaþau undir atvinnuviðtöl og kvíðafullar aðstæður. Farið verður með nemendur í heimsóknir í skóla og vinnustaði, allt eftir áhugasviði hvers og eins.

Meðal fyrirlesara eru: Evert Víglundsson, Ebba Guðný Guðmundsdóttir, Sigurbjörg Bergsdóttir, Selma Björnsdóttir og Matti Osvald.

Nemendur iðka Crossfit meðan á námskeiði stendur undir styrkri leiðsögn Everts Víglundssonar. Reynslan hefur sýnt að 99% þátttakenda ná markverðum árangri með því að fara í gegnum dagskrá Pepp Upp og stunda Crossfit jafnhliða.

 

 

 

 

Tíu reglur til ungmenna að lifa hamingjusamlega

 1. Vertu þú sjálf/ur. Hugsaðu hvað það er ,,cool‘‘ að það er aðeins til ein/n ÞÚ? Það verður aldrei til annað eintak af þér! ALDREI! Frábæra ÞÚ? Ekki eyða öllum krafti þínum til að reyna að passa við mannfjöldann. Verið hugrökk, standið með ykkur!
 1. Finnið leiðir til að vera hamingjusöm NÚNA! Lærðu af þeim sem kann að vera sérfræðingur í sjálfum sér. Það er ekki skynsamlegt að segja:.. „Ég ætla að vera hamingjusamur þegar…“ Það gerist aldrei neitt með því hugarfari. Þú verður að finna eitthvað málefni á hverjum degi á hverju augnabliki sem kemur gleðinni af stað. Hamingjan er í huga þér. Hamingjan er ekki áfangastaður í framtíðinni.  Hamingjan er núna. Finndu hana hér og nú.
 1. Þegar þú ert í einhverjum vafa eða veist ekki hvað þú átt að gera, veldu þrautseigju. Sársaukinn sem þú upplifir með því að ákveða að gefast upp veldur þér meiri sársauka í framhaldinu. Að ákveða að takast á við eitthvað sem þér í finnst erfitt í byrjun frelsar þig og gerir þig sterkari. Með því að ákveða að takast á við vandamálið ertu komin af stað með að sigrast á því.
 1. Takist á við allar erfiðar tilfinningar, ekki hlaupa frá þeim. Þú ert ekki tilfinningar þínar. Finndu út hvaða tilfinningar það eru sem þér finnst óþægilegt að sitja uppi með. Við höfum öll einhvern tímann verið í þeim sporum. Með því að æfa hugleiðslu á mindfullness lærum við að samþykkja tilfinningar og bregðast við þeim – með því að bregðast ekki við þeim.  Fyrir þau sem ekki þekkja þessa aðferð getum við hugsað okkur að við komum fram við tilfinningar eins og ungabörn. Við látum börnin ekki keyra bílinn en við setjum þau heldur ekki í skottið. Við bjóðum allar tilfinningar velkomnar með bros á vör og kveðjum þær svo. Það virkar eins og fyrir töfra.
 1. Ekki ljúga! Segðu sannleikann. Stundum líður þér betur með að ljúga, eða að segja hálf-sannleikann. Ekki gera það. Þér líður kannski betur í stuttan tíma. Æfðu og þjálfaðu þig í  heiðarleika við alla. Mikilvægast er að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum. 
 1. Stöðugar áhyggjur af útliti – er einhver ástæða til þess? Dreifðu eggjunum þínum í fleiri körfur. Útlit, þyngd, líkami, eru dýnamískir eiginleikar sem eru alltaf að breytast og gerir það að verkum að það ótraust að treysta á þá til að rífa niður sjálfsálit og engin ástæða til. Slíkir gjörningar leiða til vonbrigða þegar einhverju takmarki er ekki náð. Safnaðu eiginleikum þínum í margar körfur til að styðja við sjálfstraust þitt og hamingju! Það sem þú setur í körfur þinar getur verið fræðsla eða upplýsingaöflun, húmor, ástundun góðvildar, hreinleiki og margt margt fleira sem byggir upp. Finndu leið til að sjá sanna fegurð endurspeglast í þessum eiginleika.
 1. Taktu eftir því góða í fari annarra. Það er eitthvað gott í hverri einustu lifandi manneskju. Það er bara þannig. Leitaðu eftir því. Æfðu þig í að reyna að finna það í hverjum manni sem þú rekst á. Með þessu finnur þú það góða og heila í sjálfum þér.
 1. Taktu gagnrýni með jákvæðni. Hugsaðu um gagnrýnina á þann hátt að verið sé að rýna til gagns.  Æfðu þig í að láta það byggja þig upp og læra hvernig á að samþykkja viðbrögð til að nýta til að verða að betri sjálfur. Stundum, fyrir þau okkar sem finnst þetta djúpt, getur það verið auðveldara að forðast gagnrýni vegna þess að það getur verið sársaukafullt og of persónulegt. Taktu á því, ekki forðast að taka á móti gagnrýni. Æfingin skapar meistarann. Með því að heyra uppbyggilega gagnrýni getur þú nýtt hana til að eflast og auka sjálfstraustið.
 1. Lifðu lífi sem gerir þig stolta/n. Hvernig? Vinna þig aftur á bak frá eigin sannfæringu. Sjáðu þig fyrir þér í framtíðinni horfa yfir farinn veg. Er einhver eftirsjá? Hefði þú viljað gera eitthvað öðruvísi t.d. sleppa fleiri eftirréttum, snakki, stunda hreyfingu? Ætlar þú í framtíðinni að andvarpa með létti yfir þeim ákvörðunum sem þú tókst. Settu þér viðráðanleg markmið sem þú getur staðið við en ekki áskoranir sem krefjast þess að þú skjótist til stjarnanna. Alls ekki. Taktu ákvarðanir sem leiða þig í átt að lífi sem þú getur litið til baka á með stolti.
 1. Taktu breytingum fagnandi. Hvers vegna? Ótti við ákvarðanir og breytingar eru hamlandi. Ekki forðast áskoranir sem fela í sér breytingar. Ímyndaðu þér að þú sért tré. Þú þarft rætur til að festa þig á jörðinni og þú þarft að sveigja þig og beygja með vindum til að brotna ekki, laufskrúðið er skjól fuglanna sem tréð umfaðmar.

 

Höndlaðu hamingjuna með því að vinna í henni.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir.

Get­ur fram­hjá­hald átt sér stað í góðum sam­bönd­um?

Ágústa Ósk Óskarsdóttir.
Ágústa Ósk Óskars­dótt­ir.

„Oft er mik­ill mun­ur á því sem fólk al­mennt tel­ur vera rétt varðandi til­tek­in mál­efni og svo staðreynd­um máls. Slík er ein­mitt raun­in þegar rætt er um eðli og or­sak­ir fram­hjá­halds. Hér á eft­ir mun ég setja fram full­yrðing­ar sem eru al­geng­ar en engu að síður byggðar á rang­hug­mynd­um og svo staðreynd­ir sem byggj­ast á niður­stöðum rann­sókna,“ seg­ir Ágústa Ósk Óskars­dótt­ir sem skrifaði BA-rit­gerð þess efn­is hvort para­sam­bönd ættu líf eft­ir fram­hjá­hald. Nú er hún kom­in í meist­ara­nám og er að skoða fram­hjá­hald bet­ur. Á meðan hún rann­sak­ar fram­hjá­hald ætl­ar hún að blogga á Smartlandi Mörtu Maríu. 

„Þegar pör þurfa að horf­ast í augu við að fram­hjá­hald er orðið raun­veru­leiki í sam­bandi þeirra er gott að geta leitað svara. Skipt­ir þó máli hvaðan svör­in koma því fram­hjá­hald er viðkvæmt mál­efni og svo virðist sem all­ir hafi skoðun á því og vilji ráðleggja par­inu í kjöl­farið (þeir sem ekki hafa lent í þess­um aðstæðum reyn­ast oft hafa hvað sterk­ast­ar skoðanir).

Dæmi um rang­hug­mynd og raun­veru­leika eru:

– Rang­hug­mynd: Fram­hjá­hald á sér aðeins stað í óham­ingju­söm­um hjóna­bönd­um eða para­sam­bönd­um.

– Staðreynd: Fram­hjá­hald get­ur átt sér stað í góðum sam­bönd­um. Fram­hjá­hald snýst oft ekki um ást held­ur meira um spenn­una sem felst í því að fara yfir mörk hins leyfi­lega og samþykkta.

– Rang­hug­mynd: Fram­hjá­hald snýst yf­ir­leitt aðeins um kyn­líf.

– Staðreynd: Það sem oft dreg­ur ein­stak­ling út í fram­hjá­hald er hvernig hann spegl­ar sig í aðdá­un­ar­aug­um viðhalds­ins. Annað sem spil­ar sterkt inn er að ein­stak­ling­ur­inn upp­götv­ar nýtt hlut­verk sem elsk­hugi og ný tæki­færi til að byggja upp nýtt sam­band.

– Rang­hug­mynd: Hinn ótrúi maki skil­ur alltaf eft­ir sig vís­bend­ing­ar, þannig að ef maka hans grun­ar ekk­ert þá er hann í raun í af­neit­un, gref­ur höfuðið í sand­inn og neit­ar að sjá það aug­ljósa.

– Raun­veru­leiki: Mik­ill meiri­hluti fram­hjá­halda kemst aldrei upp. Sum­ir ein­stak­ling­ar geta  hólfað líf sitt svo „vel” niður og þannig aðgreint tvö­falda lífið eða eru svo góðir lyg­ar­ar að mak­ar þeirra kom­ast aldrei að neinu.

– Rang­hug­mynd: Ein­stak­ling­ur, sem er að halda fram­hjá, sýn­ir minni áhuga á kyn­lífi heima fyr­ir.

– Raun­veru­leiki: Spenn­an, sem mynd­ast við fram­hjá­haldið, get­ur aukið ástríðuna heima fyr­ir og gert kyn­lífið enn meira spenn­andi.

– Rang­hug­mynd: Ein­stak­ling­ur sem held­ur fram­hjá er ekki að „fá nóg“ heima hjá sér.

– Raun­veru­leiki: Sann­leik­ur­inn er sá að hinn ótrúi er lík­lega ekki að gefa nóg. Staðreynd­in er sú að maki sem gef­ur of lítið af sér er í meiri hættu á að halda fram hjá en sá sem gef­ur mikið.

– Rang­hug­mynd: Ótrúr maki finn­ur að öllu sem hinn mak­inn ger­ir.

– Raun­veru­leiki: Hann eða hún geta þvert á móti farið í hina átt­ina og verið al­veg frá­bær til þess að koma í veg fyr­ir að fram­hjá­haldið upp­götvist. Þó er lík­legt að viðkom­andi ein­stak­ling­ar séu mjög dæm­andi og ljúf­ir til skipt­is.

För­um var­lega þegar kem­ur að full­yrðing­um varðandi fram­hjá­hald, sýn­um skiln­ing og til­lits­semi, hvort sem við erum að tala við ger­anda, þolanda eða þriðja aðila. “

Hinn gullni meðalvegur

 eldad-med-ebbu-banner-is

Ég hef verið garfandi í heilsutengdum efnum sl. 18 ár. Hér að neðan er samantekt á því sem mér finnst ég hafa komist að eftir allt þetta heilsubrölt, öðrum hugsanlega til aðstoðar og einföldunar.

 1. Ég held að sama mataræði henti ekki öllum. Og stundum hentar manni svona mataræði núna, en ekki seinna (ef þið skiljið mig – og þá breytir maður til). Aðalmálið er að hafa matinn hreinan og forðast eftirlíkingar af mat, drekkhlaðnar aukaefnum og orðum sem enginn skilur. Heillavænlegast fyrir líkama og sál er að velja alltaf gæði og hreinleika. Það mun á endanum ekki kosta meira (ég lofa) vegna þess að næringarríkur matur mettar mann betur og fyrr en næringarsnauður og að öllum líkindum fækkar læknisheimsóknum. Afar mikilvægt fyrir jörðina og budduna er einnig að fara ávallt vel með allan mat og gæta þess að ekkert fari til spillis. Munið að gæta hreinlætis svo maturinn endist betur. Það er snjallt að frysta það sem liggur undir skemmdum, þroskaðir ávextir, grænmeti og annað sem lítur út fyrir að þið náið ekki að borða í tæka tíð. Það er þægilegt að eiga niðurskorið grænmeti í frysti til að henda í súpur og pottrétti og niðurskorna ávexti í þeytinga.

2. Það er mikill hávaði á alnetinu varðandi mismunandi mataræði. Nokkur dæmi;  Vegetarian (grænmetisfæði), vegan (þá er líka afurðum dýra sleppt, eins og eggjum og mjólkurafurðum), paleo (áhersla á próteinríkt fæði og lítið af sterkju; kjöt, fiskur, hnetur, fræ, avókadó, grænmeti og ávextir) og svo lágkolvetna mataræði þar sem ávöxtum er líka sleppt og jafnvel sterkjuríku grænmeti, svo eitthvað sé nefnt. Ég trúi að aðalmálið sé að hver og einn fylgi því mataræði sem honum hentar en leggi ávallt áherslu á hreinleika, gæði og hófsemi.

3. Allar öfgar, stíf boð og bönn geta endað með ósköpum eins og reglulegu ofáti og þráhyggju fyrir því sem ekki má. Til að eiga friðsamlegt líf, skemmtilegt og gleðjandi er oftast best að reyna í öllu að einfalda líf sitt og vera hæfilega kærulaus í mataræði sem og mörgu öðru, taka undantekningum með opnum örmum og geta brugðist við án þess að fara í ‘panikk’. Þetta er að sjálfsögðu bara mín skoðun, lituð af aldri og vonandi visku. Það er ekki gott ef mataræði stjórnar lífi okkar algjörlega. Ef við erum farin að forðast að hitta fólk eða mæta í allskyns boð og samkundur, þá er gott að skoða aðeins málið. Þó við borðum oftast ekki þetta eða hitt, þá gerist ekkert hræðilegt, þó maður smakki það endrum og sinnum. Líkaminn þolir vel óvæntar uppákomur. Líkaminn er ótrúlega sterkur og sniðugur. Ég skil og veit að sumir þola illa hálfkák og verða að gera alla hluti algjörlega eða ekki (og sumir með ofnæmi). En þeir sem eru það ekki, þurfa þess ekki og langar það ekki, ættu frekar að velja sér einhverja línu í mataræði sem þeim líkar, finnst góð (góður maturinn), líður vel af, eru ánægðir með en vera óhræddir við óvæntu uppákomurnar sem ferðalögin, veislurnar og allt hitt óhjákvæmlega hefur í för með sér og getur glatt ef maður er ekki of stressaður.

4. Miklar líkur eru á því að maður komist í kjörþyngd og sé þar, ef borðaður er næringarríkur matur, nóg af góðu próteini og gæðafitu hvern dag, hollt borðað á undan sætindum, hófsemi í matarskömmtun (mjög mikilvægt, snjallt að nota minni diska og skálar en stærri) og regluleg hreyfing. Og þá er ég bara að tala um hæfilega hreyfingu, engar öfgar. En kannski er stundum vandamálið að við erum að reyna að pína líkamann okkar til að vera í þyngd sem honum er ekki eðlilegt að vera í. Þá geta vandamál komið upp. Við erum svo misjöfn að upplagi, sumir grannvaxnari en aðrir og enginn eins í laginu. Mikið er um að fólk reyni allskyns öfgar til að halda einhverri ákveðinni þyngd, sem er eins og beita líkamann ofbeldi og getur endað með öfgum í hina áttina.

5. Það er bæði óhollt að borða yfir sig og svelta sig. Best er að borða þannig að manni líði vel og maður geti vel farið í göngutúr eftir matinn. Ofát er mikið álag á líkamann. Og best væri ef við gætum öll séð fegurðina í okkur sjálfum og verið okkur góð.

Í gegnum árin hefur þetta verið rauður þráður í mínu mataræði og gagnast mér vel:

*Kaupa nánast eingöngu hreinan gæðamat.

*Fara vel með mat, ekki henda mat og frysta mat sem liggur undir skemmdum.

*Kaupa minna inn í einu en meira (þá minnkar hættan á því að maður hendi mat).

*Borða nóg af gæðafitu og gæðapróteini hvern dag.

*Nota sætu eins og döðlur, lífrænt hunang, banana, stevíu, hrásykur og kókospálmasykur.

*Taka mikið inn af góðgerlum (mismunandi tegundir) og líka hægt að borða örlítið af súrkáli 1-2 sinnum á dag fyrir máltíðir.

*Ég er farin að taka meira inn af bætiefnum eftir því sem ég eldist og finn að það gerir mér gott (D-vítamín mjög mikilvægt fyrir okkur öll og sjálf tek ég magnesium inn öll kvöld).

*Drekka volgt vatn um leið og ég vakna; 1-3 glös (Hreinsar húð og líkama).

*Flesta morgna kreisti ég 1/2 súraldin eða sítrónu í glas og drekk með slettu af lífrænni ólífuolíu og skola svo tennur vel með vatni. Þetta er gott fyrir hægðirnar og gerir líkamann basískan (og því gott við nábít og brjóstsviða). Oft á ég lífrænan rauðrófusafa eða gulrótasafa og set saman við líka og úr verður ljúffengur drykkur. Stundum geri ég grænan djús; grænkál eða gúrka, engifer, epli, sítróna eða súraldin.

*Athugið að prótein og fita mettar og heldur blóðsykri stöðugum (þá sækjum við minna/lítið í sætindi). Þess vegna er mikilvægt að fá í flestum máltíðum gæðafitu og prótein. Mér finnst best að borða eingöngu prótein og fitu í morgunmat. Það slær algjörlega á sætulöngun.

Dæmi um góð prótein og fitu; Egg (lífræn), kjöt, fiskur, avókadó, hnetur, möndlur, fræ, lífrænar mjólkurafurðir, baunir og linsur, kaldpressaðar olíur (dökkum umbúðum) og hreint smjör sem dæmi.

Glútenlaus döðlukaka

.. alveg hræðilega góð og sívinsæl og mjög einföld. Er búin að búa hana til í grilljón og eitt ár og fæ aldrei leið á henni

Fyllingin:

250 g döðlur

100 ml lífrænn eplasafi eða annar ávaxtasafi (má sleppa og nota bara vatn)

100 ml vatn

Hita döðlur, safa og vatn saman að suðu í fremur litlum potti, slökkva þá undir og láta standa á meðan botninn er útbúinn.

Botninn:

110 g möndlur

110 g kókosmjöl

50 g kaldpressuð kókosolía eða 70g kalt smjör í bitum (má bæta við ef ykkur finnst þurfa þykja)

Ögn af vatni (til að ná þessu saman ef þarf) Ber og/eða ávextir til að skreyta og bragðbæta kökuna með í lokin (má nota frosin)

 1.   Hitið ofninn ykkar í 150°C.
 2. Setjið möndlur og kókosmjöl í blandara eða matvinnsluvél og malið smátt.
 3. Setjið möndlur og kókosmjöl í skál og blandið saman við smjör/kókosolíuna og vatnið (bara ef þarf) með höndunum.
 4. Pressið ofan í eldfast kökuform (24 cm um það bil), pikkið í botninn með gaffli hér og þar og bakið í um 18 mínútur.
 5. Á meðan botninn bakast maukið döðlurnar með töfrasprota ofan í pottinum eða í blandara/matvinnsluvél.
 6. Þegar botninn er svo bakaður setjið þið döðlumassann ofan á hann og skreytið svo með ferskum eða frosnum ávöxtum!

*Ég nota mjög oft lífræn frosin ber ofan á.

 

Ebba Guðný

www.pureebba.com

Kvíði og þunglyndi helsta kvöl ungmenna í dag

climbing helping team work , success concept

Frá því við opnuðum Lýðheilsusetrið Ljósbrot hefur fjöldi ungs fólks leitað til okkar vegna kvíða, þunglyndis, félagsfælni og fíknar af ýmsu tagi. Öll eiga það sameiginlegt að þrá að komast út í lífið og verða virk og hamingjusöm. Við höfum rekist á að þau sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna eru öll með mikinn kvíða og vanlíðan sem hefur haft þau áhrif að draga úr virkni þeirra í skóla og vinnu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur að geðrænir sjúkdómar verði ríkjandi árið 2030 og að fjöldi þeirra sem þurfi að kljást við þunglyndi, kvíða eða depurð einhvern tíma á ævinni muni fara vaxandi sem er
En sem betur fer eru til lausnir og það er viðfangsefni okkar hér í Lýðheilsusetrinu Ljósbrot. Við vinnum með unga fólkinu að almennri heilsueflingu og notum við það hugleiðslur eins og mindfulness, self compassion og jákvæða sálfræði. Lýðheilsusetrið Ljósbrot hefur verið að bjóða upp á ókeypis námskeið sem við köllum Pepp upp til þess að mæta þörfum unga fólksins.
Flest öll segja að þeim líði miklu betur eftir að hafa hugleitt og geti gripið til hugleiðslunnar hvenær sem þau þurfa á að halda. Eins leggjum við upp úr góðri næringu og hreyfingu. Þetta eru fyrstu skrefin til að byggja upp ungt fólk til að komast að það ástand að vera í “ESSINU” sínu eins og við köllum það, hamingjusöm og farsæl.
Allir geta upplifað vanlíðan og dagsform okkar er í bylgjum. En ef við finnum að við erum hætt að njóta þess sem okkur fannst gaman að gera, finnum fyrir breytingum á svefn- og matarvenjum, treystum okkur ekki til að hitta vini og kunningja eða fara í skóla eða í vinnu, þá er full ástæða að skoða hvað sé í gangi.

Fimmtán atriði sem stuðla að árangri og ánægju í vinnu/námi hvern dag

friendsgrouplogo

Vinsældir hugræktar hafa vaxið mjög á síðustu misserum. Fólk gerir sér æ betur grein fyrir því að ástundun hugræktar er jafn mikilvæg og ástundun líkamsræktar. Mörgum hefur þó fundist erfitt að samhæfa hugrækt að lífi og starfi. Hafa ber í huga að ástundun hugræktar er langhlaup sem aldrei er of seint að hefja. Hér er ein hugmynd að góðum degi.

1. Byrjaðu daginn með 10 mínútna núvitundar-hugleiðslu.

2. Taktu þér tíma til að njóta að borða morgunmatinn heima.

3. Minntu þig á, hvern dag, að þakka fyrir að vera á lífi og eiga næstu nýju 24 klukkustundir lífsins.

4. Forðastu að skipta tíma þínum í „minn tíma“ og „vinnutíma“. Allur tími getur verið þinn tími ef þú dvelur í núinu og ert í sambandi við það sem er að gerast í líkama þínum og huga. Það er engin ástæða til þess að tíminn í vinnunni ætti að vera minna skemmtilegri en tíminn annars staðar.

5. Reyndu að standast þá löngun að hringja í farsímann á leið til eða frá vinnu eða á stefnumót. Nýttu þér þennan tíma til að vera í núinu, náttúrunni og heiminum.

6. Finndu stað og stund í vinnunni þar sem þú getur fundið frið, tekið hlé og hvílst andartak. Taktu reglulega örstutt öndunar hlé til að tengjast líkama þínum og til að koma hugsunum þínum aftur í núið til að vera einbeitt/ einbeittur.

7. Borðaðu matinn í hádeginu í friði og ró. Ekki borða á skrifborðinu þínu eða á hlaupum. Breyttu um umhverfi. Stuttur göngutúr er góður kostur.

8. Gerðu kaffitímann sérstakan. Með því að hætta að vinna og líta djúpt í kaffið/teið/drykkinn til að sjá allt sem fór í að skapa hann: Skýin og rigninguna, plantekruna, starfsmennina og uppskeruna.

9. Fyrir fundi er gott að sjá fyrir sér frið- sælt umhverfi sem gefur þér innri ró, ró sem fylgir þér inn á fundinn.

10. Ef þú upplifir reiði eða pirring forðastu þá að segja eða gera nokkuð strax. Best er að draga djúpt andann og fylla líkamann af yfirvegun.

11. Sjáum allt samstarfsfólk okkar sem bandamenn. Samvinna skapar meiri ánægju og gleði en að vinna einn og sér. Með það að leiðarljósi að árangur og hamingja allra hinna sé þinn árangur.

12. Ástundaðu þakklæti til samstarfsmanna þinna fyrir jákvæða eiginleika þeirra. Þetta mun breyta öllu vinnuumhverfinu og skapa jafnvægi og ánægju fyrir alla.

13. Mikilvægt er að vera meðvituð/með- vitaður um að slaka á og endurheimta sjálfan sig áður en farið er heim til að bera ekki neikvæða orku eða gremju með sér.

14. Sumum finnst gott að taka sér tíma til að slaka á þegar komið er heim áður en hafist er handa við húsverkin eða sinna börnum. Mikill misskilningur er að „multitask“ skili góðum afköstum. Þá ert þú aldrei fullkomlega til staðar í neinu. Gerum einn hlut í einu og gefum honum fulla athygli.

15. Í lok dags, er gott að halda dagbók yfir alla góðu hluti dagsins. Hlúðu að gleðinni og þakklætinu reglulega svo það geti vaxið enn frekar og orðið veganesti næsta dags.

Í lauslegri þýðingu Elísabetar Gísladóttur úr úr Huff post Work Well redefining success.

Nýtt upphaf – ný tækifæri

Elisabet-1-198x300

Nýtt ár markar ntt upphaf, ný tækifæri og margir strengja heit á þessum tímamótum. Oft er það eitthvað sem snýst um að breyta lífi okkar til batnaðar.

Í nýlegri rannsókn á „árangri áramótaheita“, kemur fram að rúmlega 70% einstaklinga ná ekki að halda út nema í stuttan tíma. Heimspekingurinn og sálfræðingurinn William James sagði: „Til að gera breytingar á lífi okkar, verðum við gera það með áþreifanlegum hætti með glans en engum væntingum“. Þegar við veltum því fyrir okkur af hverju við setjum okkur
markmið eða áramótaheit, þá er ástæðan sú að við viljum vera hamingjusamari. Þá er næsta spurning: Hvað er það sem gerir okkur raunverulega hamingjusöm? Er það heilbrigðari lífsstíll, sveigjanleiki í vinnu eða vinna sem hentar fjölskyldunni betur? Auka herbergi í íbúð? Barn? Líta út fyrir að vera yngri? Lausn frá líkamlegum verkjum? Að léttast? Vera laus við slæma ávana? Að börnunum okkar gangi vel í skólanum? Vita hvað við viljum í raun gera við líf okkar? Vera meira styðjandi og umvefjandi foreldri eða aðstandandi? Læknast af illvígum sjúkdómi eða fötlun? Meiri peninga? Meiri tíma? Þetta eru algengustu svörin sem ég hef heyrt í gegnum árin. Ekkert af þessu gerir gæfumunin til að verða hamingjusamari.

Í rannsókn Sonju Lyubomirsky á þessu efni kemur fram að til að öðlast það líf sem við þráum þurfum við að vinna að því. Það er líka vinna að viðhalda hamingjunni þegar við höfum fundið hana. Sonja segir að til að ná raunverulegum markmiðum sé um að ræða þrjá misáhrifamikla meginþætti. Það að setja sér markmið vegur 50%, vinnan sem við leggjum í að ná markmiðum okkar er 40% og kringumstæður hvers og eins vega 10%. Þetta þýðir að við höfum heilmikið um það að segja um það hvort við náum markmiðum okkar og öðlumst hamingju.

Markmiðið sem við setjum okkur þurfa þau að vera vel skilgreind, mælanleg, viðráðanleg, raunhæf og tímasett. Sannleikurinn er sá að ef við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að setja stefnuna marvisst og meðvitað á að verða hamingjusamari þá gengur allt annað mikið betur líka. Fyrsta skrefið er að ákveða að vera hamingjusöm/samur og sjá það jákvæða í lífinu í kringum okkur. Þetta geta verið litlu kraftaverkin, eins og falleg sólarupprás, bros frá fjölskyldu og vinum, fyrsta djúpa öndunin þegar við vöknum að morgni og finnum að við erum á lífi. Annað skrefið er að vinna í því að vera jákvæð/ur og skila jákvæðni og samkennd til náungans og til þín. Velta því fyrir sér hverju það skilar, að koma fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig. Fara sátt/ur að sofa og vakna til nýs lífs að morgni með það að markmiði að láta þá stundina og þann daginn verða þann þann besta í lífinu. Og sjáðu hvað gerist!

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots.

Birt í Reykjavík vikublað 9. janúar 2016

Finnum samkenndina um jólin

Margir kannast við að gátlistinn lengist þegar jólin nálgast. Við teljum okkur trú um að þurfa að klára hann svo jólin verði fullkomin. Þrífa allt, baka, þræða á milli búða, mæta í jólaboð, fara á jólasýningar o.s.frv.

Margt er ómissandi og ánægjulegt í jólaundirbúningnum og liður í að komast í jólaskap með fjölskyldu og vinum. En stundum getur tilstandið orðið það mikið að það vex okkur yfir höfuð og okkur finnst við ekki ráða við aðstæður. Við förum að hafa áhyggjur af öllu sem við eigum eftir að gera sem við komumst ekki yfir með góðu móti. Það getur valdið streitu, kvíða, vansæld og svefnleysi sem síðan getur haft slæm áhrif á heilsuna.

Ef við erum meðvituð um hvernig okkur líður þá eru meiri líkur á að við endurskoðum hvað það er sem við teljum okkur þurfa að gera til að upplifa ánægju af jólaundirbúningnum. Hvað er mikilvægt og hverju má sleppa? Vel valdar gjafir, sem sprengja ekki vísareikninginn, gefnar með gleði og kærleika eru mikils virði. Samvera eða samtal skila dýrmætum minningum. Jólailmurinn af hangikjötinu, greninu eða kökuilmurinn, ef við höfum tíma til að baka, gefa jólastemmingu. Tiltekt og skreytingar ættu líka að vera fyrst og fremst ánægjulegar.

Hægt er að gera margt fallegt án þess að ofgera neinu, til dæmis kveikja á kertum. Við leyfum okkur meira í mat og drykk um jólin en hófsemi er öllum góð. Jólin koma þó svo að við höfum ekki klárað listann. Því er mikilvægast að við njótum líðandi stundar í aðdraganda jólanna. Hugsum um fjölskyldu og vini, náungann og til þeirra sem minna mega sín.

Með jákvæðum hugsunum til mannkyns alls og jarðarinnar finnum við fyrir samkennd. Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin getum við upplifað hvernig andartakið verður heilagt, vitandi að kærleikur og friður jólanna er innra með okkur. Hin fullkomnu jól.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots. 

Birt í Reykjavík vikurblað 19. desember 2015.

Leikur lífsins

Hvenær hættir þú að leika þér? Hefur þú velt fyrir þér hver sé tilgangurinn með „leik lífsins“ og hvernig við getum leikið hann til fullnustu?

Mörgum finnst við tímalaus, áhyggjufull, að okkur skorti svo margt sem við teljum okkur þurfa nauðsynlega. Sífellt bætist við listann sem við teljum okkur þurfa að ná til að öðlast hamingju. Þetta gerum við ómeðvitað til að fylla upp í skortinn sem er oft innra með okkur.

Í hraða nútí
mans gleymum við oft að lífið er endalaust ævintýri. Við sjáum oft ekki að lífið er uppfullt af tækifærum. Nú gæti eflaust einhver sagt: „Nei, þetta er ekki rétt, líttu á allar hörmungarnar í heiminum! Það eru margir sem hafa ekki möguleika á að upplifa lífið sem ævintýri.“ Allir eiga rétt á tækifærum og hafa fulla ástæðu til að leyfa sér að eiga góðar stundir á hverjum degi fjarri amstri og áhyggjum dagsins.

Allt sem þarf er að leyfa sér að taka eftir undrunum og fegurðinni í kringum sig eins og stjörnunum, sólsetrinu, fjöllunum, skýjunum, kertaljósunum, listunum … Við þurfum aðeins að staldra við, draga djúpt inn andann og leyfa okkur að njóta og hlaða þannig batteríin. Við höfum fjálsan vilja sem enginn getur tekið frá okkur í hvaða aðstæðum sem við erum. Við getum einfaldlega ákveðið að æfa okkur í að koma auga á eitthvað jákvætt í lífinu. Viðhorf okkar og hugsun getum við sjálf ákveðið að stjórna.
Við þurfum að átta okkur á að lífið er takmarkalaust, það er frítt, ótrúlega spennandi og býður upp á ný undur á hverjum degi. Við þurfum bara að taka eftir þeim með því að stoppa og gefa okkur andartak til að koma auga á töfrana hið innra sem ytra, upplifa og taka fullan þátt í leik lífsins.

Elisabet

Elísabet Gísladóttir, framkvæmdastjóri Lýðheilsusetursins Ljósbrots.

Birt í Reykjavík vikurblað 12. desember 2015

Notum jólamánuðinn í að hlúa að þeim sem minna mega sín

Fíkn tekur á sig margar og mismunandi myndir. Fíknin fer er ekki í manngreinarálit, spyr ekki um stétt eða stöðu og getur vaknað á hvaða aldri sem er. Það sem öll fíkn á þó sameiginlegt er flótti frá tilfinningalegri líðan.

Fíkn framkallar breytingu á ástandi í miðtaugakerfi. Miðtaugakerfið stjórnar m.a. líðan, framkomu og hegðun. Ólíkir hlutar heilans hafa mismunandi störfum að gegna. Þegar ávana- og fíkniefni eru notuð breytist starfsemi þessara stöðva. Kvíði, óánægja, sinnuleysi og tilfinningadeyfð magnast og verða hluti af lífi einstaklingsins. Sjálfsvirðing dofnar og flókið fíknarferli fer af stað. Flótti frá hinni sönnu (tilfinninga)vitund verður meiri og meiri, næmnin til að elska eigið sjálf og aðra, getan til að flokka tilfinningar og hæfnin til að þroska með sér tilfinningagreind staðnar. Doði sest yfir allt tilfinningakerfið og viðkomandi hverfur hægt og sígandi inn í eigin heim og eigin sýn á sjálfið og veröldina alla. Fíkngenið hefur kviknað og stjórnleysið tekið völdin.

Heimurinn sem við lifum í er oft svo harður að það er ekki skrítið að fólk flýi inn í doðann. Áföll, erfiðleikar og allar þessar væntingar um eigin getu til að takast á við lífið, starfið, námið og allt annað sem lífsgangan hefur upp á bjóða er bein ávísun á að þurfa að upplifa sársauka, höfnun, brostnar vonir og skömm yfir að standast ekki væntingar … og þannig er nú bara lífið.

Lífið er eitt stórt tilfinningaferðalag með öllum þeim sorgar- og gleðistundum sem það hefur upp á að bjóða. Enginn kemst undan því að sorgin í sínum mismunandi myndum banki upp á og sem betur fer fá flestallir að upplifa sinn ljúfa skerf af því að fá að opna fyrir dyrum hamingjunnar. Sumir fá þó að upplifa þyngri sorgir og meiri en aðrir og hafa jafnvel ekki fengið gott veganesti út í lífið. Allt það hefur áhrif og vegur þungt á vogarskálunum, sem getur orðið til þess að ýta undir flóttann inn í fíknina.

Það ætti því að vera auðvelt að sýna samkennd með þeim sem hafa orðið fíkninni að bráð, ef hægt væri að sjá hana með þeim augum að einhvers staðar á leiðinni gafst viðkomandi hreinlega upp og ákvað að flýja undan innri vanlíðan og ótta.

Það er aldrei barnsins draumur að verða fíkninni að bráð, sakleysið á alltaf fagra, ómengaða framtíðarsýn. Enginn vill vera fangi fíknarinnar.

Einu sinni voru þessi einlægu orð sögð við mig, „ég get ekki snúið til baka, leiðin til baka er of löng og brýrnar allar brunnar, ég hef ekki lengur getu til að vinna mér inn ÁST og VIRÐINGU þeirra sem skipta mig máli“. Í mínum huga segja þessi orð allt sem segja þarf um hvað við sem sálir þráum fyrst og fremst í lífinu og hver undirstaða lífsins er … þ.e.a.s. að fá að elska aðra og að ást okkar sé móttekin. Að fá að upplifa ást sem okkur er gefin skilyrðislaust af þeim sem eru í kringum okkur. Virðing fyrir okkur sem sál, manneskju, okkar mannlega eðli og (viðkvæmri) lífsgöngu okkar er það sem skiptir mestu máli sama hvernig lífsferð okkar eða staða í samfélaginu er.

Það er á ábyrgð okkar allra að sýna þeim sem heyja þessa baráttu mannúð. Með því að gefa þá endurgjaldslausu gjöf byggjum við brýr fyrir aðra til að koma til baka og við gefum þeim þessa von um að þora að gefast upp og koma „heim“.

Við sem sáum Samhjálparsöfnunina á stöð 2 urðum vitni að því hversu nauðsynlegt störf sem slík eru, og um leið vorum við minnt á hve þörfin er mikil.“

Núna þegar dimmur veturinn hefur skollið á, þá eykst á sama tíma myrkrið og vonleysið í lífi margra. Öll getum við tekið þátt í að hlúa að þeim sem berjast á þessum vígstöðvum, hvort sem er að fara með föt niður í Konukot eða færa heimilislausum mat. Verum því vakandi yfir því sem við getum gert til að hafa áhrif til góðs hvort sem er með tíma okkar eða fjármunum.

Notum jólamánuðinn (sem og auðvitað alla aðra mánuði) í að hlúa að þeim sem minna mega sín.

12696277_1102878549793750_461250977_n

Sigga Helga Jacobsen.

Birtist á vefmiðlinum kvennabladid.is 11. desember 2015